Hvað fæ ég fyrir minn snúð?
Stjórn Landssambands bakarameistara, LABAK, vill gjarnan deila gagnlegum námskeiðum Iðunnar með félagsmönnum sínum.
Á vef Iðunnar má finna upplýsingar um námskeið, fræðslusjóð sem og annað gagnlegt efni. Á döfinni er afar áhugavert námskeið um verðvitund í veitingarekstri, undir yfirskriftinni Hvað fæ ég fyrir minn snúð?
Nálgast má upplýsingar um námskeiðið á vef Iðunnar, hér: https://www.idan.is/fraedsla/nanar-um-namskeid/allotment/2024/11/12/Hvad-fae-eg-fyrir-minn-snud-Verdvitund-i-veitingarekstri/?flokkur=Matv%c3%a6la-+og+veitingagreinar
Einnig má finna yfirlit yfir næstu námskeið ásamt frekari fróðleik á vegum Iðunnar fyrir matvæla- og veitingagreinar, hér: https://www.idan.is/fraedsla/matvaela-og-veitingagreinar/
30. Südbak kaupstefnan haldin í Stuttgart
Dagana 26. - 29. október 2024 var kaupstefnan Südback haldin í Stuttgart í 30. skiptið.
Um er að ræða eina eftirsóttustu og veglegasta vörusýning Evrópu fyrir bakarí og kökugerð og var hún sótt af hópi fagmanna frá Íslandi þetta árið.
Meðal gesta var Sigurður Már Guðjónsson, formaður LABAK, og má nálgast viðtal við hann og nánari umfjöllun um viðburðinn á Matarvef mbl.is, hér: https://www.mbl.is/matur/frettir/2024/11/05/storfengleg_kaupstefna_og_fagsyning_af_bestu_gerd/
Elisabete Ferreira heimsbakari ársins fyrst kvenna
Þann 22. október 2024 var haldinn hátíðarkvöldverður UIBC þar semútnefndir voru heimsbakari ársins 2024 og kökugerðarmarður ársins 2024.
Elisabete Ferreira, bakarameistari frá Portúgal, var útnefnd heimsbakari ársins 2024 og er hún jafnframt fyrst kvenna til að hljóta þá virðingu.
Florian Löwer var valinn kökugerðarmaður ársins 2024, en hann kemur frá Þýskalandi.
Nánari umfjöllun má finna á Matarvef mbl.is, hér: https://www.mbl.is/matur/frettir/2024/10/23/fyrsta_konan_valin_heimsbakari_arsins/
Frábær frammistaða í Nemakeppni Kornax
Nemakeppni Kornax fór fram í 26. sinn í Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi og lauk henni fimmtudaginn 17. október þegar úrslit voru tilkynnt.
Alls voru 18 nemar skráðir til leiks að þessu sinni og stóðu þeir sig með stakri prýði. Af þeim komust svo sex nemar áfram í úrslitakeppnina og var samkeppnin afar hörð.
Tinna Sædís Ægisdóttir var hlutskörpust að þessu sinni og hreppti fyrsta sæti keppninnar. Silfrið féll til Karenar Lilju Sveinsdóttur en bronsið fékk Kara Sól Ísleifsdóttir.
Umfjöllum og myndir frá keppninni má nálgast á Matarvef mbl.is, hér: https://www.mbl.is/matur/frettir/2024/10/18/tinna_saedis_hreif_med_ser_domarana_alla_leid_a_top/
LABAK þakkar Árvakri og Sjöfn Þórðardóttur fyrir vandaða umfjöllun
LABAK veitti Árvakri hf. og Sjöfn Þórðardóttur viðurkenningu og þakklætisvott fyrir vandaða og góða umfjöllun í tengslum við Heimsmót ungra bakara UIBC sem haldið var hér á landi dagana 3. - 5. júní 2024.
Umfjöllun Árvakurs hf., útgáfufélags Morgunblaðsins, og Sjafnar, umsjónarmanns Matarvefs mbl.is, vakti mikla athygli og var verðugt framlag til skráningar sögulegs viðburðar hér á landi. Fyrir þessa góðu umfjöllun, sem er til þess fallin að efla hróður bakarastéttarinnar hér á landi, vildi Landssamband bakarameistara þakka og veitti Sigurður Már Guðjónsson, formaður LABAK, Sjöfn og Árvakri hf. viðurkenningar í Hádegismóum fyrir hönd landssambandsins.
Umfjöllun má nálgast hér:á vef mbl.is.
Þáttur bakaraiðnaðar í menningarsögu Íslands
Saga bakaraiðnaðar er gerð að umfjöllunarefni í pistli Björn Jóns Bragasonar á Eyjunni.
Þar er m.a. fjallað um komu bakaraiðnar til landsins með Bernhöft bakara frá Suður-Jótlandi og mikilvægi þess að standa vörð um fagkröfur iðngreina.
Óhætt er að mæla með lestri pistilsins sem nálgast má hér: dv.is/eyjan.
Bakarastéttin fagnar 190 ára sögu
Dagurinn í dag er merkur í sögu bakaraiðnaðar á Íslandi en á þessum degi, þann 25. september árið 1834 opnaði fyrsta brauðgerð landsins eða fyrir 190 árum síðan.
Hinn danski Peter Christian Knudtzon, kaupmaður og þingmaður hafði þá reist húsnæði í Torfunni og var bakaraofn að finna í einu þeirra. Hann fékk þá þýskan bakarameistara að nafni Tönnies Daniel Bernhöft til starfa við brauðgerðina. Sá átti eftir að taka við rekstrinum og breytti nafni brauðgerðarinnar í Bernhöftsbakarí, og er það bakarí í rekstri enn þann dag í dag. Árið 1868 var síðan opnuð brauðgerð á Akureyri og voru bakaríin þá orðin tvö en þeim átti þá aðeins eftir að fjölga.
Bakarastéttin fagnar því 190 ára afmæli í dag og færir Landssamband bakarameistara, LABAK, bökurum landsins ásamt landsmönnum heillaóskir í tilefni dagsins.
Fjallað er um þessi tímamót í Morgunblaðinu þar sem Sigurður Már Guðjónsson, formaður LABAK og bakarameistari Bernhöftsbakarís, er til viðtals um sögu fyrirtækisins sem er samofin sögu bakarastéttarinnar og iðnaðar á Íslandi, en bakaríið er jafnframt elsta iðnfyrirtæki landsins.
Lesa má frétt Morgunblaðsins hér að neðan og hana má einnig nálgast hér: mbl.is.
Nýsveinar í bakaraiðn tóku á móti sveinsbréfum sínum
Þriðjudaginn 17. september sl. fór fram afhending sveinsbréfa til nýsveina á Hótel Nordica við hátíðlega athöfn.
Þar fengu alls 13 nýsveinar í bakaraiðn afhent sveinsbréf sín, en þetta er fjölmennasti hópur nýsveina í greininni síðan árið 2000.
Sigurður Már Guðjónsson, formaður LABAK og sveinsprófsnefndar, afhenti nýsveinum sveinsbréf sín ásamt viðurkenningu frá LABAK.
Fjölmenn athöfn
Afhending sveinsbréfa var afar fjölmenn að þessu sinni. Alls fengu 223 nýsveinar afhent sveinsbréf sín og voru afhent sveinsbréf í alls 16 mismunandi iðngreinum.
Þar voru auk nýsveina í bakaraiðn nýsveinar í bifreiðasmíði, bifreiðamálun, blikksmíði, framreiðslu, húsgagnabólstrun, húsgagnasmíði, kjötiðn, matreiðslu, málaraiðn, múraraiðn, pípulögnum, stálsmíði, veggfóðrun, dúkalögn og veiðafæratækni.
Fjölmennasti hópurinn voru nýsveinar í húsasmíði en í þeirri grein voru alls 81 sveinsbréf afhent.
Landssamband bakarameistara óskar öllum nýsveinum innilega til hamingju með áfangann og glæstan árangur.
Nánar er fjallað um athöfnina á vef Morgunblaðsins, hér á mbl.is.
Íslenska liðið náði öðru sæti á Norðurlandamótinu í bakstri
Íslenska landsliðið í bakstri náði glæstum árangri á Norðurlandamótinu í bakstri, Nordic Cup, sem fram fór í Berlín dagana 28. - 31. ágúst sl.
Liðið er skipað þeim Finni Prigge, Matthildi Ósk Guðbjörnsdóttur og Sunnevu Kristjánsdóttur og óskar LABAK þeim innilega til hamingju með glæstan árangur. Þetta er annað árið í röð sem íslenska liðið vinnur til silfurs á Norðurlandamótinu og því ljóst að bakaraiðnin á Íslandi er í miklum blóma um þessar mundir.
Í ár voru það Svíar sem voru hlutskarpastir og sigruðu keppnina og Norðmenn lentu í þriðja sæti.
Nánar er fjallað um keppnina á vef Morgunblaðsins sem nálgast má hér: mbl.is.
Anna Gísladóttir, hússtjórnarkennari er fallin frá
Anna Gísladóttir, hússtjórnarkennari, lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli sunnudaginn 25. ágúst sl.
Anna starfaði um árabil hjá Iðnskólanum í Reykjavík við kennslu bóklegra faga fyrir bakara og kjötiðnaðarmenn. Önnu var annt um framþróun iðnmenntunar og uppbyggingu þeirrar öflugu bakarastéttar sem uppi er í dag. Framlag hennar í gegnum árin hefur verið ómetanlegt.
Má því segja hún hafi haldið uppi merkjum föður síns við framþróun iðnnáms og bakarastéttarinnar hér á landi. En faðir hennar, Gísli Ólafsson bakarameistari var lengi vel öflugur félagsmaður í Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur sem hann gekk í á þeim tíma sem umræður um setningu iðnlöggjafar og laga um iðnnám stóð sem hæst, en sú löggjöf var samþykkt árið 1928. Þá sat hann í stjórn Bakarameistarafélags Reykjavíkur í alls 22 ár og þar af 18 ár sem formaður en hann var gerður að heiðursfélaga félagsins og sæmdur gullmerki þess. Þá var hann sæmdur gullmerki Iðnaðarmannafélagsins sem og gullmerkjum félagasamtaka bakarameistara í Finnlandi og Svíþjóð en að auki var hann sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til bakarastéttarinnar og iðnmenntunar á Íslandi.
Anna Gísladóttir var alltaf boðin og bún til að leggja sitt af mörkum og tók m.a. þátt í verkefninu „Kaffi bakarans“ sem Landssamband bakarameistara stóð að. Þar gekk hún í störf fyrirsætu og prýddi kaffipoka með meðalbrenndu kaffi frá Mið-Ameríku, eins og sjá má hér að neðan.
Landssamband bakarameistara vottar fjölskyldu og aðstandendum Önnu dýpstu samúðarkveðjur um leið og þakkað er fyrir dýrmætt framlag hennar til bakarastéttarinnar á Íslandi.