Lög Landssambands bakarameistara
I. Nafn, aðsetur og hlutverk
1. gr.
Sambandið heitir Landssamband bakarameistara, sem skammstafað er LABAK. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
Markmið og tilgangur LABAK er: a) Að safna saman í ein samtök öllum fyrirtækjum sem standa að rekstri brauð- og kökugerða, enda séu þessi fyrirtæki rekin af eða hafi í þjónustu sinni bakara- eða kökugerðarmeistara. b) Að gæta hagsmuna sambandsaðila gagnvart opinberum aðilum og öðrum þeim sem sambandsaðilar skipta við. LABAK skal koma fram sem sameiginlegur aðili fyrir aðila að sambandinu að því er varðar hagsmunamál þeirra. c) Að vinna að aukinni menntun, verkkunnáttu og vöruvöndun í greininni, svo og að standa fyrir kynningu og fræðslu á þeim sviðum er bakaraiðnina varðar.
II. Aðild
3. gr.
Rétt til aðildar að LABAK sem fullgildir meðlimir hafa öll fyrirtæki sem standa fyrir rekstri brauð- og kökugerða, enda hafi þessi fyrirtæki í þjónustu sinni bakara- eða kökugerðarmeistara.
4. gr.
Umsókn um inngöngu í LABAK skal vera skrifleg og sendast til stjórnar. Skulu umsókninni fylgja öll nauðsynleg gögn sem sýni að umsækjandi uppfylli öll skilyrði um inngöngu. Umsækjandi telst hafa hlotið inngöngu í LABAK þegar stjórnin hefur samþykkt inntökubeiðni hans. Komist stjórnin ekki að niðurstöðu um hvort taka beri umsókn til greina, skal skjóta ákvörðun til næsta aðalfundar.
5. gr.
Labak er aðili að Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins. Innganga í LABAK felur jafnframt í sér beina aðild að Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins með þeim réttindum og skyldum sem kveðið er á um í samþykktum þeirra.
III. Úrsögn og brottvikning úr sambandinu
6. gr.
Úrsögn úr LABAK skal vera skrifleg og taka gildi að liðnum þremur mánuðum frá því hún var tilkynnt. Úrsögn skal einungis taka gildi að viðkomandi liggi ekki undir kæru fyrir brot á lögum LABAK eða samþykktum stjórnar þess. Enginn má segja sig úr LABAK meðan vinnudeila stendur yfir, eða rekstrarstöðvun sem LABAK hefur samþykkt af öðrum sökum.
7. gr.
Stjórn er heimilt að víkja aðila úr LABAK um lengri eða skemmri tíma hafi viðkomandi gerst brotlegur við lög LABAK, eða samþykktir stjórnar þess, þ.m.t. skuldi hann félagsgjöld tvö ár aftur í tímann. Krafa um greiðslu áfallinna félagsgjalda fellur ekki niður þótt aðila sé vikið úr LABAK. Sambandsstjórn skal ávallt leggja ákvörðun um brottvikningu fyrir næsta aðalfund LABAK til endanlegrar afgreiðslu.
IV. Aðalfundur
8. gr.
Lögmætir aðalfundir eru æðsta vald í öllum málefnum sambandsins.
Aðalfundur LABAK skal haldinn fyrir lok maímánaðar ár hvert. Til fundarins skal boða bréflega eða með tölvupósti með minnst 14 daga fyrirvara.
Rétt til setu aðalfundar LABAK skulu allir aðilar hafa sem ekki eru brotlegir við lög þess eða samþykktir.
9. gr.
Dagskrá aðalfundar skal vera:
Skipun fundarstjóra og fundarritara.
a) Skýrsla stjórnar. b) Lagðir fram skoðaðir reikningar fyrir liðið starfsár. c) Fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár. d) Lagabreytingar. e) Kosningar: Formaður og stjórn til eins árs, auk tveggja varamanna. Skoðunarmaður reikninga kosinn til eins árs í senn. Nefndir ef þurfa þykir f) Ákvörðun félagsgjalda. g) Önnur mál.
Rétt til setu aðalfundar LABAK skulu allir aðilar hafa sem ekki eru brotlegir við lög þess og samþykktir. Atkvæðisrétt hafa aðeins þeir félagar sem ekki skulda félagsgjöld frá því ári sem verið er að gera upp. Lögmætir aðalfundir eru æðsta vald í öllum málefnum sambandsins..
10. gr.
Stjórn félagsins getur boðað til aukaaðalfundar telji hún þess þörf eða helmingur félagsmanna fer fram á slíkt við stjórn félagsins. Þá verði hann haldinn eigi síðar en 30 dögum eftir að beiðni þess efnis berst stjórn félagsins.
Til aukaaðalfundar skal boða á sama hátt og reglulegs aðalfundar, og er hann löglegur, sé löglega til hans boðað.
V. Almennir félagsfundir
11. gr.
Lögmætir félagsfundir hafa æðsta vald milli aðalfunda í öllum málefnum LABAK, innan þeirra marka sem lög þessi setja.
Almennir félagsfundir skulu haldnir þegar stjórn þykir þurfa eða þegar 1/3 hluti sambandsaðila krefst þess. Kröfu sambandsaðila um almenna félagsfundi skal senda formanni sambandsins og skal þess getið hvers vegna fundar er krafist. Formanni ber að boða fundinn innan þriggja daga frá því honum barst krafan.
Boða skal til almennra félagsfunda bréflega eða með tölvupósti, með 14 daga fyrirvara, þar sem helstu verkefna er getið. Heimilt er boða fund með styttri fyrirvara ef tilefni fundarins krefst þess.
VI. Atkvæðagreiðsla
12. gr.
Hver aðili að LABAK skal fara með eitt atkvæði á fundum og hafa aðeins þeir félagar atkvæðarétt sem ekki skulda félagsgjöld frá síðastliðnu reikningsári.
Félagsmenn hafa heimild til að framselja atkvæðisrétt sinn á fundum, séu atkvæðagreiðslur ekki framkvæmdar með rafrænum hætti.
Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á öllum fundum félagsins nema annað sé tekið fram.
VII. Stjórn
13. gr.
Stjórn LABAK skipa þrír félagar, formaður og tveir meðstjórnendur, sem kosnir eru til eins árs á aðalfundi og ræður stjórnin málefnum félagsins milli funda. Skal hún annast framkvæmdir á samþykktum félagsfunda og vera í hvívetna á verði um hagsmuni LABAK.
Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund og kýs hún úr sínum hópi varaformann og ritara.
14. gr.
Tilkynna skal um framboð til stjórnar a.m.k. tveimur sólarhringum fyrir aðalfund og eru kjörgengir til stjórnar forráðamenn fyrirtækja er standa fyrir rekstri brauð- og kökugerða, sem teljast fullgildir meðlimir að LABAK skv. 3. gr.
15. gr.
Formaður skal boða til stjórnarfunda, svo oft sem þurfa þykir. Skylt er að boða til stjórnarfunda ef tveir stjórnarmenn krefjast þess.
Stjórnarfundur er lögmætur ef meirihluti stjórnarmanna er mættur. Falli atkvæði jöfn við atkvæðagreiðslu í stjórn LABAK ræður atkvæði formanns úrslitum.
VIII. Starfsár
16. gr.
Starfsár félagsins er á milli aðalfunda, en reikningsárið er almanaksárið. Gjaldkeri skal afhenda skoðunarmönnum LABAK reikninga til skoðunar eigi síðar en viku fyrir aðalfund.
IX. Meðferð lagabrota
17. gr.
Sérhverjum aðila að LABAK er skylt að hlíta lögum og samþykktum þess. Brot gegn lögum og samþykktum LABAK varða sektum sem nema skulu að lágmarki minnstu upphæð árgjalda, en að hámarki hæstu upphæð árgjalda, eins og þau eru á hverjum tíma. Ákvörðun um sekt má skjóta til almenns félagsfundar til endanlegrar ákvörðunar. Ákvörðun slíks fundar telst einungis lögleg að helmingur atkvæðisbærra aðila að sambandinu hafi mætt. Sambandsstjórn er heimilt að innheimta sektina með málssókn.
X. Félagamerki í eigu LABAK
18. gr.
Aðeins eigandi og umsjónarmaður félagamerkja í eigu LABAK hafa rétt til að ráðstafa þeim til birtingar á umbúðum, í auglýsingum og/eða birta þau með öðrum hætti í kynningarskyni á afurðum sem tengjast vörulínu félagsins er félagamerki taka til.
Einungis félagsmenn LABAK mega kynna og selja vörur sem merktar eru félagamerki í eigu félagsins.
Öll notkun félagamerkja í eigu LABAK, að hluta til eða í heild, í rituðu, lesnu og prentuðu máli, er með öllu óheimil nema með skriflegu leyfi eiganda.
Með brot félagsmanna gegn þessari grein skal farið skv. 17. gr. laga þessara.
XI. Lagabreytingar
19. gr.
Lögum LABAK má ekki breyta nema á löglegum aðalfundi, enda hafi þess verið getið í fundarboði að lagabreytingar yrðu til meðferðar á fundinum og meginefni þeirra kynnt. Lagabreytingar þurfa samþykki 2/3 fundarmanna til að ná fram að ganga.
*Lögunum var síðast breytt á aðalfundi LABAK 29. apríl 2023
1. gr. Lög þessi taka til rekstrar hvers konar iðnaðar í atvinnuskyni. Til iðnaðar telst bæði handiðnaður og verksmiðjuiðnaður, hvaða efni eða orka, vélar eða önnur tæki sem notuð eru og hvaða vörur eða efni sem framleidd eru. Heimilisiðnaður skal undanskilinn ákvæðum laganna.
Lögin er hægt að lesa nánar á althingi.is hér.