Löggiltar iðngreinar

Bakaraiðn

Brauðgerð hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda og er bakaraiðn ein elsta iðngreinin á Íslandi. Upphaf iðnarinnar hér á landi má rekja til ársins 1834 þegar fyrsta bakaríið, Bernhöftsbakarí, var stofnsett í Reykjavík.

Bakarar eru að störfum þar sem fram fer framleiðsla á brauðvörum, sætabrauði, kökum, tertum, konfekti og eftirréttum. Þeir starfa aðallega í bakaríum, kökugerðarhúsum, hótelum og veitingahúsum við að framleiða brauð og sætabrauð, kökur og tertur en einnig í kexverksmiðjum og sælgætisgerðum við kexbakstur, sælgætisframleiðslu og skreytingar. Við störf sín nota bakarar margvíslegan búnað allt frá litlum handverkfærum til flóknustu tækjasamstæða.

Bakarar reka eigin fyrirtæki, sinna verkstjórn, stjórna innkaupum og leiðbeina nemendum og öðru starfsfólki. Enn fremur starfa þeir við sölumennsku og ráðgjöf á fagsviði sínu. Vaxandi þáttur í starfi bakarans er að uppfylla þarfir viðskiptavina fyrir fljótlegan handmat svo sem bökur, smurt brauð og aðra skyndirétti. Enn fremur hefur eftirspurn eftir veisluþjónustu vaxið mjög á síðustu árum og má þar nefna brauðréttahlaðborð sem hafa notið mikilla vinsælda.

Bakarar eiga samstarf við fjölmargar starfsstéttir hérlendis sem erlendis, s.s. hráefnisframleiðendur, heildsala, veitingamenn og verslunarfólk. Í bakaraiðn sem og annarri matvælaframleiðslu er hreinlæti mikilvægasta krafan sem gerð er til starfsfólks og ekki síður til stjórnenda fyrirtækjanna.
Heilbrigðislöggjöfin undirstrikar þetta. Bakarar eiga að vera öðrum til fyrirmyndar hvað varðar snyrtimennsku í klæðnaði við vinnu.

Heimild: Aðalnámskrá framhaldsskóla Matvæla- og veitingagreinar Menntamálaráðuneytið 2004

Image
Image

Löggiltar iðngreinar

Kökugerð/konditor

Kökugerð er iðngrein sem löggilt var á Íslandi með útgáfu fyrstu iðnaðarlaganna árið 1927. Kallast hún í nágranalöndum okkar Konditor, en þangað verða allir þeir sem ljúka vilja prófi í iðninni að fara í skóla.

Í samanburði við gamlar iðngreinar eins og bakaraiðn er konditorfagið harla ungt. Á 15. öld tóku bakarar í Evrópu að baka vörur úr hunangi, þurrkuðum ávöxtum og kryddum. Kölluðust þeir hunangskökubakarar og stofnuðu sitt fyrsta iðngildi árið 1643 í Nürnberg í Þýskalandi. Konditorfagið er mjög skylt bakaraiðn og þróaðist út frá henni. En eftir því sem vöruúrvalið jókst varð þörfin fyrir sérstaka nafngift stéttarinnar greinilegri, nafngift sem endurspeglaði starfsviðið.

Þeir bakarar sem þannig sérhæfðu sig nefndu sig því „sykurbakara“. Það var svo á 16. öld að latneska orðinu „condire“ tók bregða fyrir í samhengi sykurbaksturs; upp frá því breyttist starfsheitið í „konditor“.

Við hvað starfa konditorar? Konditorar starfa við konditori (kökugerð), í bakaríum, sinna sælgætisgerð og vinna á veitingahúsum við tertu- og kökubökun, gerð eftirétta og skreytingar.

Heimild: www.konditor.is