Anna Gísladóttir, hússtjórnarkennari er fallin frá

28
Ág

Anna Gísladóttir, hússtjórnarkennari er fallin frá

Anna Gísladóttir, hússtjórnarkennari, lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli sunnudaginn 25. ágúst sl.

 

Anna starfaði um árabil hjá Iðnskólanum í Reykjavík við kennslu bóklegra faga fyrir bakara og kjötiðnaðarmenn. Önnu var annt um framþróun iðnmenntunar og uppbyggingu þeirrar öflugu bakarastéttar sem uppi er í dag. Framlag hennar í gegnum árin hefur verið ómetanlegt.

Má því segja hún hafi haldið uppi merkjum föður síns við framþróun iðnnáms og bakarastéttarinnar hér á landi. En faðir hennar, Gísli Ólafsson bakarameistari var lengi vel öflugur félagsmaður í Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur sem hann gekk í á þeim tíma sem umræður um setningu iðnlöggjafar og laga um iðnnám stóð sem hæst, en sú löggjöf var samþykkt árið 1928. Þá sat hann í stjórn Bakarameistarafélags Reykjavíkur í alls 22 ár og þar af 18 ár sem formaður en hann var gerður að heiðursfélaga félagsins og sæmdur gullmerki þess. Þá var hann sæmdur gullmerki Iðnaðarmannafélagsins sem og gullmerkjum félagasamtaka bakarameistara í Finnlandi og Svíþjóð en að auki var hann sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til bakarastéttarinnar og iðnmenntunar á Íslandi.

Anna Gísladóttir var alltaf boðin og bún til að leggja sitt af mörkum og tók m.a. þátt í verkefninu „Kaffi bakarans“ sem Landssamband bakarameistara stóð að. Þar gekk hún í störf fyrirsætu og prýddi kaffipoka með meðalbrenndu kaffi frá Mið-Ameríku, eins og sjá má hér að neðan. 

Landssamband bakarameistara vottar fjölskyldu og aðstandendum Önnu dýpstu samúðarkveðjur um leið og þakkað er fyrir dýrmætt framlag hennar til bakarastéttarinnar á Íslandi.

 

Deila: