Elíza Reid forsetafrú tók á móti fyrstu Köku ársins
Sala á Köku ársins 2024 hófst í bakaríum Landssambands bakarameistara, LABAK, fimmtudaginn 22. febrúar en Kaka ársins er að venju kynnt í bakaríum í tilefni konudagsins á sunnudaginn. Kakan var formlega kynnt þegar formaður LABAK Sigurður Már Guðjónsson og höfundur kökunnar, Eyjólfur Hafsteinsson hjá Bakarameistaranum, afhentu Elizu Reid forsetafrú fyrstu köku ársins sem þakklæti fyrir allt það sem hún hefur látið af sér leiða fyrir land og þjóð síðustu átta ár líkt og segir í tilkynningu frá LABAK.
Kaka ársins var valin í keppni sem LABAK efnir til árlega og fer þannig fram að keppendur skila inn tilbúnum kökum sem dómarar meta og velja úr þá sem þykir best til þess fallin að hljóta titilinn Kaka ársins. Í ár var keppnin haldin í samstarfi við Nóa Síríus og inniheldur Nóa-smákropp.
Eins og fyrri ár er mikið lagt í köku ársins en í ár er hún er í mörgum lögum. Mjúkir marengsbotnar blandaðir með kókossykri og léttristuðum kókos og heslihnetum. Tertan er fyllt með karamellu og núggat frómas og bragðbætt með ferskri appelsínupúrru. Kakan er hjúpuð appelsínukrydduðum mjólkursúkkulaðiganas með Nóa-smákroppi. Líkt og áður segir er höfundur hennar Eyjólfur Hafsteinsson hjá Bakarameistaranum.
Sala á kökunni hefst í bakaríum félagsmanna LABAK um allt land í dag fimmtudag og verður til sölu það sem eftir er ársins.