Kaka ársins er hraunkaka
Úrslit í keppni um köku ársins hjá Landssambandi bakarameistara fór fram í beinni útsendingu í þættinum Vikan með Gísla Marteini síðastliðið föstudagskvöld. Þrjár kökur, sem þóttu skara fram úr í forkeppni í nóvember, kepptu að þessu sinni til úrslita. Gestir sjónvarpsþáttarins þau sr. Davíð Þór Jónsson, Vilhelm Þór Da Silva Neto, leikari, og Dóra Jóhannsdóttir, leikkona og leikstjóri, skipuðu dómnefndina og varð kaka Garðars Tranberg hjá Bakarameistaranum fyrir valinu sem kaka ársins 2021.
Ásamt köku Garðars þá voru það kökur frá Ólöfu Ólafsdóttur, hjá Mosfellsbakaríi og Sigurði Má Guðjónssyni, hjá Bernhöftsbakaríi sem kepptu til úrslita eftir að hafa komist áfram úr forkeppni sem haldin var í nóvember.
Kaka Garðars er Góu hraunkaka með karamellumús og ferskju- og ástaraldinfrómas. Kakan verður sett í sölu í bakaríum Landssambands bakarameistara í tilefni konudagsins 21. febrúar næstkomandi.
Landssamband bakarameistara óskar Garðari til hamingju með köku ársins 2021