Framtíðarsýn LABAK breytt til að taka af öll tvímæli

21
Des

Framtíðarsýn LABAK breytt til að taka af öll tvímæli

Í svarbréfi Landssambands bakarameistara, LABAK, til Samkeppniseftirlitsins kemur fram að framtíðarsýn félagsins hafi nú þegar verið breytt til að taka af öll tvímæli um þau atriði sem Samkeppniseftirlitið gerði athugasemdir við í stefnulýsingu LABAK frá stefnumótunarfundi samtakanna sem haldinn var 14. október 2016.

Þá var þeim tilmælum beint til samtakanna að endurskoða þá stefnu og markmið samtakanna sem fram koma í stefnulýsingunni. Jafnframt var vakin athygli á að fordæmi séu fyrir því að samtök fyrirtækja setji sér innri reglur sem miði að því að samstarf aðildarfyrirtækja innan samtakanna verði ávallt samþýðanlegt samkeppnislögum.

Í svarbréfinu þakkar LABAK, sem er aðildarfélag SI, Samkeppniseftirlitinu fyrir bréfið og tilmælin sem í því fólust. Í skýringum segir að við skoðun á fyrrnefndri stefnulýsingu sé ljóst að orðalag hennar sé óheppilegt og misvísandi hvað markmið og stefnu samtakanna varðar. LABAK vinni að sameiginlegum hagsmunum aðildarfélaga með því að stuðla að bættri hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum. Samtökin gera sér grein fyrir mikilvægi þess að tryggt sé að ekki myndist vettvangur þar sem upplýsingaflæði, sem leitt getur til röskunar á samkeppni, eigi sér stað milli aðildarfyrirtækja. Þá segir að forsvarsmönnum samtakanna sé fullljóst að viðskiptasamningar við birgja séu trúnaðarmál hvers og eins fyrirtækis og að sameiginleg innkaup af einhverju tagi geti brotið í bága við samkeppnislög. Slík sameiginleg innkaup hafi ekki átt sér stað og ekki staðið til heldur var verið að vísa til þess að félagsmönnum LABAK bjóðast stundum afsláttarkjör eða tilboð frá aðilum sem vilja vera í viðskiptum við félagsmenn LABAK.

Í svarbréfinu er þess jafnframt getið að innan Samtaka iðnaðarins sé nú unnið að því að innleiða í starf samtakanna samkeppnisréttarstefnu og samskiptaviðmið sem gilda um öll undirsamtök og önnur aðildarfélög samtakanna, þ. á m. LABAK. Tilgangur samkeppnisréttarstefnunnar sé að tryggja fagleg og gegnsæ vinnubrögð í starfsemi samtakanna og fyrirbyggja háttsemi sem brotið gæti gegn samkeppnislögum.

Svarbréf LABAK til Samkeppniseftirlitsins. Bref-LABAK-til-SKE-21-12-2017

Framtíðarsýn LABAK 2016 lagfærð. Framtidarsyn-LABAK-2016-lagfaerd

Deila: