Íslenska bakaralandsliðið keppir í Stokkhólmi um helgina

20
Sep

Íslenska bakaralandsliðið keppir í Stokkhólmi um helgina

Íslenska bakaralandsliðið tekur þátt í Norðurlandakeppni í bakstri sem fram fer í Stokkhólmi um næstu helgi. Í landsliðinu eru sex ungir bakarar sem hafa á undanförnum mánuðum æft sig í gerð ýmis konar brauðmetis og gerð skrautstykkis.

Landsliðið keppir á vegum Landssambands bakarameistara, LABAK, við lið frá Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi.

Keppt er í þremur flokkum, brauðgerð, gerð sætra smástykkja og gerð skrautstykkis sem verður að vera að öllu leyti úr ætilegu hráefni. Þema keppninnar er kvikmyndir og er bökurunum frjálst að velja hvað sem er innan þess þema. Íslenska liðið valdi kvikmyndina Mary Poppins og eru öll keppnisstykkin tengd myndinni á einhvern hátt.

Þjálfari bakaralandsliðsins er Ásgeir Þór Tómasson, fagstjóri baksturs í Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi. Hægt er að fylgjast með liðinu á Snapchat undir „landslidbakara“. Bakaralandsliðið heldur utan á morgun fimmtudag.

Mynd
Íslenska bakaralandsliðið sem fer utan til að keppa í Norðurlandakeppni í bakstri.
Talið frá vinstri: Ásgeir Þór Tómasson, þjálfari liðsins, Anna Magnea Valdimarsdóttir, Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir, Birgir Þór Sigurjónsson, Aðalheiður Dögg Reynisdóttir, Stefán Hrafn Sigfússon og Daníel K. Ármannsson.

Deila: