Bakarar styrkja krabbameinsrannsóknir um 1 milljón króna
Landssamband bakarameistara, LABAK, hefur afhent styrktarfélaginu Göngum saman styrk að upphæð 1 milljón króna sem safnaðist með sölu á brjóstabollum í maí síðastliðnum.
Sala á brjóstabollum hefur verið árviss viðburður í bakaríum um allt land síðastliðin sjö ár. Afrakstur sölunnar hefur runnið óskiptur til styrkja vegna grunnrannsókna á brjóstakrabbameini og er heildarupphæðin sem bakarar hafa afhent Göngum saman orðin 9 milljónir króna.
Jóhannes Felixson, formaður LABAK, segir ánægjulegt að geta stutt svo verðugt málefni sem Göngum saman stendur fyrir.
„Bakarar um allt land hafa verið reiðubúnir að taka þátt í verkefninu síðastliðin sjö ár og landsmenn hafa sýnt þessu velvilja með því að kaupa bollurnar. Við teljum málefnið mikilvægt og það er gott til þess að vita að vísindin njóti góðs af þessum styrkjum frá okkur.“
Gunnhildur Óskarsdóttir, formaður Göngum saman, segir starfsemi félagsins miða að því að safna fé og efla styrktarsjóð fyrir rannsóknir.
„Við viljum taka þátt í því mikilvæga starfi að rannsaka eðli og uppruna krabbameins í brjóstum. Frá stofnun höfum við úthlutað rúmlega 70 milljónum króna í rannsóknastyrki til íslenskra vísindamanna. Það munar mikið um þennan stuðning frá bökurunum og þökkum við af heilum hug fyrir þeirra framlag.“
Mynd: Jóhannes Felixson, formaður LABAK, afhendir Gunnhildi Óskarsdóttur, formanni Göngum saman, styrkinn.