Íslenska bakaralandsliðið keppir í Danmörku

16
Mar

Íslenska bakaralandsliðið keppir í Danmörku

Íslenska bakaralandsliðið tekur þátt í  Nordic Bakery Cup 2018, sem fram fer í Herning í Danmörku 17.-19. mars næstkomandi.

Liðið skipa Birgir Þór Sigurjónsson, yfirbakari hjá Brauð & co sem lagar brauð, Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir, bakari hjá Sandholt lagar rúlluð deig og brios, og  Ásgeir Þór Tómasson, bakarameistari og fagstjóri bakaradeildarinnar í Hótel- og matvælaskólanum, sem lagar skrautstykki. Þemað í keppninni er Sport.


Daníel K. Ármannsson, yfirbakari hjá IKEA, verður dómari.

Liðið er búið að æfa saman og í sitthvoru lagi síðan í október, bæði á sínum vinnustöðum og í bakaríi Hótel- og matvælaskólans um kvöld og helgar. Hópurinn heldur utan föstudaginn 16. mars.

Á æfingatímanum hefur liðið fengið handleiðslu frá mörgum meisturum, má þar nefna Jimmy Griffin, írskum stórmeistara, sem tók fyrir rúlluð deig og súrdeigsbrauð með liðinu í Hótel- og matvælaskólanum. Jimmy hefur dæmt margar af stærri keppnum í bakstri og voru leiðbeiningar hans mikilvægar fyrir svo ungt lið eins og bakaralandsliðið er.

Christophe Debersee, heimsmeistari í skrautstykkjabakstri frá 2008, kom og leiðbeindi liðinu ásamt því að halda námskeið fyrir bakara og nemendur bakaradeildarinnar sem voru að undirbúa sig fyrir nemakeppni í bakstri. Var heimsókn hans stórkostleg upplifun enda er maðurinn hokinn af reynslu og hefur þjálfað mörg landslið síðastliðin 10 ár.

Kennslubakaríinu í Hótel- og matvælaskólanum var stillt upp eins og um keppnissvæði væri að ræða,þ.e.a.s. ekki mátti vinna nema á takmörkuðu svæði þar sem uppmæld lengd og breidd vinnuborða var eins og verður á keppnissvæðinu. Æfingar hafa gengið vel og hafa margir komið að allri undirbúningsvinnu.

Dagskrá keppninnar í Herning er eftirfarandi:

Laugardagur 17.03.2018

Kl. 16:00 -17:00 keppendur koma sér fyrir í keppnisbakaríum.

Kl. 17:30 – 19:00 keppni stendur yfir.

Sunnudagur 18.03.2018

Kl. 07:00 skrautstykkjabakarar byrja og vinna til kl. 14:00.

Kl. 09:00 hinir tveir byrja og klára kl. 16:00.

Það verður hægt að fylgjast með liðinu á bakarasnappinu undir heitinu landslidbakara.

Á myndinni eru frá vinstri: Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir, Birgir Þór Sigurjónsson, Daníel Kjartan Ármannsson, þjálfari og dómari og Ásgeir Þór Tómasson.

Deila: